Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hreyfing og lýðheilsa
Föstudagur 6. maí 2022 kl. 07:48

Hreyfing og lýðheilsa

Ásdís Ragna Einarsdóttir, verkefnastjóri lýðheilsumála hjá Reykjanesbæ.

Dagleg hreyfing er mikilvæg til þess að auka líkamlegan og andlegan styrk og vellíðan svo að fólki gangi betur að takst á við verkefni daglegs lífs. Það að hreyfa sig reglulega hefur fjölþættan ávinning fyrir heilsuna eins og rannsóknir staðfesta. Hreyfing minnkar líkurnar á flestum langvinnum sjúkdómum meðal annars líkurnar á að fá kransæðasjúkdóma, heilablóðfall, sykursýki af tegund 2, sumar tegundir krabbameina, stoðkerfisvandamál og geðröskun. Ávinningurinn af því að hreyfa sig takmarkast ekki við að fyrirbyggja sjúkdóma eða halda þeim í skefjum heldur eykur hreyfing líkamshreysti, vellíðan og lífsgæði almennt. Auk beinna áhrifa á heilsu og líðan geta lifnaðarhættir, sem fela í sér daglega hreyfingu, skapað tækifæri til að mynda og styrkja félagsleg tengsl. Hreyfing er einnig tengd öðrum heilbrigðum lífsháttum svo sem góðu mataræði og reykleysi og getur hjálpað til við aðrar jákvæðar breytingar á lífsháttum. Kyrrseta getur haft slæmar afleiðingar fyrir heilsu og fjárhag fólks og það er ekki síður mikið í húfi fyrir samfélagið í heild. Rannsóknir benda til þess að meira en helmingur fullorðinna Íslendinga hreyfi sig ekki í samræmi við hreyfiráðleggingar. Tímaskortur og þreyta eru algengar skýringar fyrir lítilli hreyfingu hjá fullorðnum. Því er lögð sérstök áhersla á að hreyfingin þurfi ekki að vera tímafrek eða erfið, til að hafa jákvæð áhrif á heilsu og stuðla að vellíðan nægir að stunda miðlungserfiða hreyfingu daglega í samtals hálftíma. Æskilegast er að stunda hreyfingu reglulega alla ævi en það er aldrei of seint að byrja. Umfram allt er mikilvægt að velja hreyfingu í stað kyrrsetu í daglegu lífi t.d. með því að velja göngu eða hjólreiðar sem ferðamáta eins oft og mögulegt er, þrífa heimilið, velja stigann í stað lyftunnar, ganga rösklega, synda eða skokka rólega og sinna garðvinnu. Kostir þess að takmarka kyrrsetu og stunda reglubundna hreyfingu eru ótvíræðir fyrir almenna heilsu og vellíðan. 

Möguleikar til hreyfingar og útivistar eru víðsvegar á Suðurnesjum og má þar nefna heilsustíga og fjölda gönguleiða í fallegri náttúru Reykjaness. Einnig er að finna fjórar hreyfistöðvar í Reykjanesbæ með fjölbreyttum útiæfingatækjum sem taka á öllum vöðvum líkamans og henta bæði fyrir unga sem aldna. Laugardaginn 7. maí næstkomandi milli klukkan 11 og 12 verður boðið upp á kennslu á útiæfingatækin í Skrúðgarðinum þar sem þjálfari frá Heilsuakademíu Keilis mun kenna bæjarbúum hvernig megi nota útiæfingatækin sér til heilsubótar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024